Chelsea bjargaði stigi með þremur mörkum

Tammy Abraham og Mason Mount fagna á Hawthorns í dag. …
Tammy Abraham og Mason Mount fagna á Hawthorns í dag. Þeir skoruðu báðir fyrir Chelsea. AFP

Chelsea bjargaði sér fyrir horn í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Liðið gerði 3:3-jafntefli gegn West Brom á Hawthorns-vellinum eftir að hafa lent þremur mörkum undir í fyrri hálfleik.

Heimamenn hófu leik með látum. Callum Robinson kom þeim yfir strax á fjórðu mínútu og bætti við marki á 25. mínútu eftir agaleg mistök Thiago Silva, sem var að spila sinn fyrsta leik fyrir Chelsea, en varnarmaðurinn missti boltann í öftustu línu. Staðan var svo 3:0 á 27. mínútu er varnarmaðurinn Kyle Bartley skoraði á fjærstönginni.

Gestirnir færðu sig hins vegar upp á skaftið eftir hlé og sneru taflinu við. Mason Mount minnkaði muninn á 55. mínútu með föstu skoti utan teigs og Callum Hudson-Odoi bætti við marki innan teigs eftir laglegt samspil við Kai Havertz. Tammy Abraham tryggði Chelsea svo stigið er hann jafnaði metin á þriðju mínútu í uppbótar´tima með skoti af stuttu færi í kjölfar hornspyrnu þar sem boltinn virtist fara í hönd Havertz en eftir athugun myndbandsdómara var markið dæmt gilt.

Chelsea er með fjögur stig eftir fyrstu þrjá leikina sína en þetta var fyrsta stig West Brom á tímabilinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert