Nýliðarnir skoruðu sigurmark í lokin

Chris Basham tæklar fyrir markaskorarann Patrick Bamford á Bramall Lane …
Chris Basham tæklar fyrir markaskorarann Patrick Bamford á Bramall Lane í dag. AFP

Nýliðar Leeds unnu 1:0-sigur á Sheffield United í þriðju umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í hádegisleiknum í dag. Heimamenn hafa enn ekki skorað mark á tímabilinu og stefndi leikurinn í markalaust jafntefli allt fram á 88. mínútu.

Sóknarmaðurinn Patrick Bamford skoraði sigurmarkið tveimur mínútum fyrir leikslok með skalla eftir fyrirgjöf Jack Harrison og var markið í raun ekki annað en það sem gestirnir verðskulduðu eftir að hafa verið sterkari aðilinn í síðari hálfleik.

Leeds er með sex stig eftir þrjá leiki en liðið hefur nú unnið tvö í röð eftir tap gegn Englandsmeisturum Liverpool í fyrstu umferðinni. Sheffield er á botninum án stiga og hefur ekki skorað mark í sínum þremur leikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert