Dýrasti leikmaður í sögu City

Rúben Dias er á leið til Manchester City.
Rúben Dias er á leið til Manchester City. AFP

Enska knattspyrnufélagið Manchester City er að ganga frá kaupunum á Rúben Dias, varnarmanni Benfica, en þetta staðfesti portúgalska félagið á samfélagsmiðlum sínum í gærkvöldi.

Dias kostar 65 milljónir punda en City þarf að borga 62 milljónir punda fyrir hann og þá munu þrjár milljónir punda bætast við síðar meir.

Nicolás Otamendi mun ganga til liðs við Benfica á móti en Benfica þarf að borga 14 milljónir punda fyrir argentínska miðvörðinn.

Kaupverð beggja leikmanna hafa verið samþykkt og þá eiga þeir aðeins eftir að semja um kaup og kjör við félögin.

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri City, hefur verið á eftir réttfættum miðverði eða allt frá því Vincent Kompany yfirgaf félagið síðasta sumar.

Dias er 23 ára gamall portúgalskur miðvörður en hann er uppalinn hjá Benfica og á að baki 90 leiki fyrir félagið í öllum keppnum.

Þá á hann að baki 19 landsleiki fyrir Portúgal en hann lék sinn fyrsta landsleik árið 2018.

Dias verður dýrasti leikmaður í sögu City, samkvæmt Sky Sports, en Rodri kostaði City 62,8 milljónir punda, sumarið 2019.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert