Karius lánaður á ný frá Liverpool

Loris Karius.
Loris Karius. AFP

Þýski knattspyrnumarkvörðurinn Loris Karius hefur verið lánaður frá enska meistarafélaginu Liverpool fyrir komandi tímabil, þriðja árið í röð.

Karius, sem er 27 ára gamall, hefur ekki varið mark Liverpool síðan í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu gegn Real Madrid vorið 2018. Þar átti hann ekki sinn besta leik og í kjölfarið keypti Liverpool brasilíska markvörðinn Alisson Becker og lánaði Karius til Besiktas í Tyrklandi, þar sem hann var tvö tímabil.

Seinni hluti síðasta tímabils einkenndist af fjárhagsvandræðum Besiktas sem greiddi Þjóðverjanum ekki laun í fjóra mánuði. Hann lék 55 leiki með liðinu í tyrknesku úrvalsdeildinni á þessum tveimur tímabilum.

Nú er hann hinsvegar kominn til heimalandsins en Union Berlín hefur fengið Karius lánaðan frá Liverpool. Tvær umferðir eru búnar í Þýskalandi þar sem Union tapaði á heimavelli fyrir Alfreð Finnbogasyni og félögum í Augsburg, 1:3, en gerði síðan jafntefli, 1:1, við Mönchengladbach á útivelli.

mbl.is