Krækir United í Kanté fyrir lokun?

N'Golo Kanté í leik með Chelsea.
N'Golo Kanté í leik með Chelsea. AFP

Manchester United ætlar að gera Chelsea gott tilboð í franska miðjumanninn N'Golo Kanté áður en lokað verður fyrir félagaskiptin í enska fótboltanum 5. október, samkvæmt frétt Daily Mirror í dag.

Þar er sagt að Chelsea sé tilbúið að láta Kanté fara fyrir rétt verð, þar sem félagið sé þegar búið að verja meira en 200 milljónum punda til leikmannakaupa í sumar.

Kanté hefur þótt einn af bestu miðjumönnum deildarinnar undanfarin ár, en hann sló í gegn með Leicester þegar hann varð enskur meistari með liðinu árið 2016 og lék svo sama leik með Chelsea árið eftir en Chelsea keypti hann fyrir 32 milljónir punda.

Kanté festi sig um svipað leyti í franska landsliðinu og var kjörinn leikmaður ársins í Frakklandi árið 2017 en hann var síðan í stóru hlutverki í heimsmeistaraliði Frakka á HM í Rússlandi árið 2018.

mbl.is