Dier við Tómas „Ég var sá eini sem gerði eitthvað rangt“

Eric Dier leikmaður enska úrvalsdeildarliðsins Tottenham og enska landsliðsins ræddi við Tómas Þór Þórðarson hjá Símanum sport. Ekki er langt síðan Dier var hér á landi með enska landsliðinu, en hann fékk lítið að skoða land og þjóð.

„Við ætluðum í Bláa lónið en við komumst ekki. Sem betur fer unnum við leikinn, svo við fórum glaðir heim,“ sagði Dier við Tómas. 

Dier fékk dæmda á sig vítaspyrnu í uppbótartíma er Tottenham fékk Newcastle í heimsókn á sunnudag. Callum Wilson skoraði úr vítinu og urðu lokatölur 1:1. 

„Auðvitað er þetta svekkjandi en fyrir utan atvikið í lokin vorum við góðir og þetta var ein besta frammistaðan sem við höfum átt sem lið í nokkurn tíma. Þetta atvik setti svartan skugga á leikinn,“ sagði Dier, áður en hann ræddi frekar um VAR og José Mourinho.

Næsti leikur Tottenham í deildinni er gegn Manchester United á sunnudaginn kemur. Skiptu liðin með sér stigunum síðast þegar þau mættust, 1:1. Bruni Fernandes skoraði jöfnunarmark United úr víti sem Dier gaf. 

„Ég var sá eini sem gerði eitthvað rangt í síðasta leik. Við vorum flottir en ég gaf þeim vítaspyrnu,“ sagði Dier. 

Viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan en mbl.is færir ykkur efni úr enska boltanum í samvinnu við Símann sport. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert