Reifst við Klopp í beinni útsendingu

Jürgen Klppp var kátur í leikslok.
Jürgen Klppp var kátur í leikslok. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, mætti sáttur í viðtal við Sky Sports eftir 3:1-sigur Liverpool gegn Arsenal í ensku úrvalsdeildinni á Anfield í gær.

Arsenal komst yfir í leiknum með marki frá Alexandre Lacazette en Sadio Mané, Andy Robertson og Diogo Jota skoruðu mörk Liverpool í leiknum.

Leikurinn var gerður upp í sjónvarpsþættinum Monday Night Football sem er í umsjón Davids Jones en gestir þáttarins að þessu sinni voru þeir Jamie Carragher og Roy Keane.

Keane talaði um að leikmenn Liverpool hefðu verið kærulausir á köflum í leiknum en Lacazette slapp til að mynda tvívegis einn gegn Alisson, markverði Liverpool, og við þessi ummæli var Klopp ósáttur.

„Ég var ánægður með allt,“ sagði Klopp þegar hann mætti í viðtal við Sky Sports.

„Heyrði ég rétt áðan þegar herra Keane talaði um að kæruleysi hefði einkennt frammistöðu okkar í leiknum? Sagði hann það í alvörunni?“

„Ég sagði að þið hefðuð verið kærulausir í eitt eða tvö skipti í leiknum,“ svaraði Keane þá.

„Kannski heyrði ég vitlaust eða þá að hann var að tala um annan leik því það getur ekki hafa verið leikurinn sem fór fram á Anfield í kvöld. 

Þetta er ótrúlegt orð til þess að lýsa leiknum því frammistaða liðsins var stórkostleg. Það var ekkert, nákvæmlega ekkert, kærulaust við spilamennsku okkar.

„Það eina sem ég sagði var að það hefðu verið augnablik þar sem þið lituð út fyrir að vera kærulausir, annars hef ég ekki gert neitt annað en að hrósa ykkur,“ sagði Keane að lokum.

Að viðtali loknu talaði svo David Jones um viðkvæmni knattspyrnustjóranna á Englandi.

„Hann var mjög viðkvæmur,“ bætti Keane við. „Ímyndið ykkur hvernig hann hefði verið ef hann hefði tapað leiknum.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert