Guardiola hvergi nærri hættur

David Alaba og Pep Guardiola unnu saman hjá Bayern München …
David Alaba og Pep Guardiola unnu saman hjá Bayern München á sínum tíma. AFP

Enska knattspyrnufélagið Manchester City festi kaup varnarmanninum á Rúben Dias í gærkvöldi og varð hann um leið dýrasti leikmaður í sögu félagsins.

Dias kosti 65 milljónir punda en hann er 23 ára gamall, portúgalskur miðvörður, sem er uppalinn hjá Benfica í heimalandi sínu og á að baki 19 landsleiki fyrir Portúgal frá árinu 2018.

Sportsmail greinir frá því að Pep Guardiola sé ekki hættur á leikmannamarkaðnum og vilji bæta við vinstri bakverði áður en félagaskiptaglugginn lokar.

David Alaba, varnarmaður Bayern München og Nicolás Tagliafico, varnarmaður Ajax, eru sagðir efstir á óskalista Guardiola.

Þeir eru báðir 28 ára gamlir en spænski stjórinn vill meiri reynslu í öftustu víglínu hjá sér eftir síðasta tímabil. Alaba kostar í kringum 60 milljónir punda en Tagliafico er verðmetinn á 25 milljónir punda.

City fékk skell í síðasta leik sínum í ensku úrvalsdeildinni gegn Leicetster á Etihad-vellinum í Manchester en leiknum lauk með 5:2-sigri Leicester.

City er í þrettánda sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 3 stig eftir fyrstu tvo leiki sína.

mbl.is