Leeds varð fyrir höggi

Liam Cooper eltir Riyad Mahrez í leik Leeds og Manchester …
Liam Cooper eltir Riyad Mahrez í leik Leeds og Manchester City um síðustu helgi. AFP

Nýliðar Leeds í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu urðu fyrir höggi í landsleikjahléinu sem nú er í gangi en tveir leikmenn þeirra meiddust um helgina og gætu orðið frá í nokkurn tíma.

Miðverðirnir Liam Cooper og Diego Llorente hafa báðir þurft að draga sig í hlé með landsliðum sínum vegna meiðsla. Spánverjar sögðu frá því í dag að Llorente væri að snúa aftur til Englands eftir að hafa meiðst í læri en hann kom ekki við sögu í sigrinum gegn Sviss í gær.

Þá gat Cooper, sem er fyrirliði Leeds, ekki spilað leik Skotlands gegn Slóvakíu í dag en þjálfari Skota, Steve Clarke, staðfesti að varnarmaðurinn væri meiddur og myndi ekki heldur spila gegn Tékklandi í vikunni.

Leeds hefur farið vel af stað í úrvalsdeildinni, unnið tvo, gert eitt jafntefli og aðeins tapað einum af fyrstu fjórum leikjum sínum.

mbl.is