Scholes sest í stjórastólinn

Paul Scholes stýrir Salford í næstu leikjum.
Paul Scholes stýrir Salford í næstu leikjum. AFP

Paul Scholes, fyrrverandi leikmaður Manchester United og enska landsliðsins, hefur tekið við starfi knattspyrnustjóra D-deildarfélagsins Salford City til bráðabirgða.

Scholes er einn eigenda félagsins en stjórinn, Graham Alexander, var rekinn úr starfi í morgun. Liðið er samt taplaust eftir fyrstu fimm leiki sína í deildinni, hefur unnið tvo leiki og gert þrjú jafntefli og er í fimmta sæti deildarinnar.

Scholes lagði skóna á hilluna árið 2013 en hefur lítið komið að stjórnun liða. Hann stýrði liði Salford til bráðabirgða í skamman  tíma árið 2015 og tók síðan við Oldham í febrúar 2019 en hætti störfum eftir aðeins sjö leiki.

mbl.is