Hafnaði Real Madrid í tvígang

Arséne Wenger hefur ekki þjálfað síðan hann hætti með Arsenal …
Arséne Wenger hefur ekki þjálfað síðan hann hætti með Arsenal árið 2018. AFP

Arséne Wenger, fyrrverandi knattspyrnustjóri Arsenal í ensku úrvalsdeildinni, lét af störfum hjá félaginu árið 2018 eftir 22 ár sem þjálfari liðsins.

Frakkinn tók við liðinu árið 1996 og varð liðið þrívegis Englandsmeistari undir hans stjórn og sjö sinnum bikarmeistari en honum tókst ekki að gera Arsenal að Evrópumeisturum.

Wenger er orðinn 70 ára gamall í dag en á tíma sínum hjá Arsenal fékk hann mörg freistandi starfstilboð frá stærstu liðum Evrópu.

Þjálfaranum var til að mynda tvívegis boðið að taka við Real Madrid en alltaf hafnaði hann spænska stórliðinu.

„Ég get alveg sagt það að ég var mjög nálægt því að taka við Real Madrid á einum tímapunkti á ferlinum,“ sagði Wenger í samtali við Nesta McGregor hjá BBC.

„Ég var með Arsenal-lið í höndunum sem ég vissi að gæti ekki barist um meistaratitilinn en samt ákvað ég að vera áfram því ég átti ókláruð verkefni hér.

Það er ástæða fyrir því hversu lengi ég dvaldi  hjá bæði Monaco og Arsenal, ég er þannig gerður að ég vil klára þau verkefni sem ég tek mér fyrir hendur,“ bætti Wenger við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert