Skrítin ákvörðun að semja við Cavani

Edinson Cavani skrifaði undir samning við Manchester United á lokadegi …
Edinson Cavani skrifaði undir samning við Manchester United á lokadegi félagaskiptagluggans. AFP

Paul Scholes, fyrrverandi leikmaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, skilur ekki af hverju félagið ákvað að semja við Edinson Cavani á lokadegi félagaskiptagluggans.

Cavani skrifaði undir eins árs samning við United með möguleika á árs framlenginu en hann er orðinn 33 ára gamall.

Framherjinn kom til United á frjálsri sölu eftir sjö ár í herbúðum PSG í Frakklandi þar sem hann skoraði 200 mörk í 301 leik fyrir félagið í öllum keppnum.

„Það er ekkert víst að Cavani sé að fara slá í gegn á Old Trafford,“ sagði Scholes í samtali við Mail.

„Hann er frábær framherji þegar hann er á deginum sínum, á því leikur enginn vafi. Hann er hins vegar 33 ára gamall og hann íhugaði að leggja skóna á hilluna. Hann spilaði ekki mikið fyrir PSG á síðustu leiktíð heldur.

Hann hefði verið frábær kaup fyrir félagið fyrir fimm til sex árum síðan. Hann hefði getað tekið liðið í hæstu hæðir en ég sé það ekki gerast í dag.

„United hefði átt að reyna fá einhvern á láni og það var skrítin ákvörðun að semja við Cavani sem er líklega kominn yfir sitt blómaskeið,“ bætti Scholes við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert