Aflýsa vináttulandsleik vegna veirunnar

Enska landsliðið mætir Belgíu og Íslandi í Þjóðadeild UEFA í …
Enska landsliðið mætir Belgíu og Íslandi í Þjóðadeild UEFA í nóvember. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nýsjálenska knattspyrnusambandið hefur ákveðið að aflýsa vináttulandsleik sínum gegn Englandi hinn 12. nóvember næstkomandi sem fara átti fram á Wembley í London.

Ferðalagið frá Nýja-Sjálandi til Englands er ansi langt og yfirmenn knattspyrnusambandsins telja best að aflýsa leiknum vegna kórónuveirufaraldursins og flækjustigsins sem ferðalagið til Englands gæti skapað.

„Því miður þá neyðumst við til þess að aflýsa vináttulandsleik okkar sem fara átti fram gegn Englandi í næsta mánuði,“ segir í fréttatilkynningu nýsjálenska knattspyrnusambandsins.

„Þar sem margir leikmenn liðsins hefðu þurft að fara í sóttkví við komuna til síns heimalands sáum við ekkert annað í stöðunni en að aflýsa leiknum,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

Enska liðið mætir Belgíu og Íslandi í Þjóðadeild UEFA, 15. og 18. nóvember næsstkomandi, og átti leikurinn gegn Nýja-Sjálandi að vera hluti af undirbúningi liðsins fyrir Þjóðadeildina.

mbl.is