Ancelotti reiknar með að allir séu tilbúnir

Carlo Ancelotti leikur listir sínar með boltann.
Carlo Ancelotti leikur listir sínar með boltann. AFP

Carlo Ancelotti knattspyrnustjóri Everton reiknar með því að hafa flestalla sína bestu leikmenn klára í slaginn fyrir stórleikinn gegn Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn.

Miðjumennirnir André Gomes og Allan ættu að geta spilað á ný eftir að hafa misst af síðasta leik liðsins, sem og bakvörðurinn Seamus Coleman.

Ancelotti sagði á heimasíðu Everton að Gomes væri alheill og myndi örugglega geta spilað og bæði Allan og Coleman hefðu æft með liðinu í vikunni. Coleman yrði í það minnsta leikfær og horfunar væru góðar með Allan.

Gylfi Þór Sigurðsson kom inní byrjunarliðið í síðasta leik þegar Gomes og Allan voru meiddir, eftir að hafa byrjað fyrstu þrjá leiki Everton í deildinni í haust á varamannabekknum.

Everton hefur byrjað frábærlega á tímabilinu og unnið alla sjö leiki sína, fjóra í úrvalsdeildinni og þrjá í deildabikarnum, og er eitt á toppi deildarinnar með 12 stig. Liverpool er með 9 stig í fimmta sætinu. Leikur liðanna hefst kl. 11.30 á laugardaginn á Goodison Park.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert