Hafnaði Barcelona fyrir Liverpool

Thiago gekk til liðs við Liverpool frá Bayern München í …
Thiago gekk til liðs við Liverpool frá Bayern München í sumar. AFP

Knattspyrnumaðurinn Thiago Alcantara gekk til liðs við Englandsmeistara Liverpool í sumar en enska félagið borgaði 25 milljónir punda fyir Spánverjann.

Thiago kom til Liverpool frá Bayern München í Þýskalandi en þar sem samningur hans átti að renna út næsta sumar ákváðu Bæjarar að selja hann þar sem vildi ekki framlengja í Þýskalandi.

Thiago, sem er 29 ára gamall, er uppalinn hjá Barcelona en gekk til liðs við Bayern árið 2013 þegar Pep Guardiola tók við stjórnartaumunum hjá félaginu.

Barcelona reyndi að fá Thiago aftur í sumar samkvæmt Mundo Deportivo en ákvað að fara til Liverpool þar sem hann vildi ólmur spila fyrir Jürgen Klopp.

Thiago er afar sigursæll knattspyrnumaður en hann varð tvívegis Spánarmeistari með Barcelona og einu sinni Evrópumeistari. Þá varð hann sjö sinnum Þýskalandsmeistari með Bayern og einu sinni Evrópumeistari.

mbl.is