Tillögum Liverpool og Manchester United alfarið hafnað

Tillögur Liverpool og Manchester United féllu ekki í kramið.
Tillögur Liverpool og Manchester United féllu ekki í kramið. AFP

Félögin í ensku úrvalsdeildinni hafa hafnað einróma tillögu sem Liverpool og Manchester United lögðu fram í sameiningu og kvað á um miklar breytingar á deildinni ásamt því að völd stóru félaganna hefðu aukist umtalsvert.

Í yfirlýsingu frá félögunum segir að þau muni í staðinn vinna saman að áætlun um hvernig megi efla deildina sem mest.

Enska deildakeppnin, þar sem aðild eiga félögin í þremur næstu deildum, B, C og D-deildum, hafði hinsvegar staðfest að meirihluti félaganna þar styddi hugmyndir Liverpool og Manchester United.

Þar var því lofað að liðin í neðri deildunum, sem flest hver eru illa stödd vegna fjárhagsörðugleika af völdum kórónuveirunnar, fengju strax 250 milljón punda björgunarpakka og 25 prósent af framtíðartekjum úrvalsdeildarinnar.

Stjórn úrvalsdeildarinnar segir að eftir sem áður verði lagður fram björgunarpakki fyrir félög í C- og D-deildum til að forðast að þau yrðu gjaldþrota.

Í tillögum Liverpool og Manchester United var m.a. kveðið á um að liðum úrvalsdeildarinnar yrði fækkað úr 20 í 18, deildabikarinn yrði aflagður, sem og leikurinn um samfélagsskjöldinn, þau níu félög sem lengst hefðu verið í deildinni myndu ráða mestu og nóg yrði að sex þeirra greiddu atkvæði með róttækum breytingum.

mbl.is