Áhyggjuefni að fá á sig sjö mörk (myndskeið)

Everton tekur á móti Liverpool í nágrannaslag ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu á laugardaginn kemur klukkan 11:30.

Everton er með fullt hús stiga eða 12 stig eftir fyrstu fjóra leiki sína í efsta sæti deildarinnar á meðan Liverpool er með 9 stig í fimmta sætinu.

Matt Holland lék 202 leiki í ensku úrvalsdeildinni með Ipswich og Charlton og á von á hörkuleik á Goodison Park.

„Það hefur verið mikið um mörk í upphafi tímabilsins og það hefur verið virkilega gaman að fylgjast með því,“ sagði Holland.

„Everton hefur spilað frábærlega í fyrstu leikjum tímabilsins og ég á því von á því að bæði lið muni sækja til sigurs.

Ég spái mikið af mörkum og fjörugum leik,“ bætti Holland við.

Leikur Everton og Liverpool verður sýndur beint á Síminn Sport.

mbl.is