Ekki nota mitt nafn til að skaða United

Bruno Fernandes í leiknum umrædda.
Bruno Fernandes í leiknum umrædda. AFP

Bruno Fernandes, miðjumaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, hefur verið mikið á milli tannanna á fólki eftir 6:1-tap liðsins gegn Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Old Trafford hinn 4. október síðastliðinn.

Mirror greindi frá því að Fernandes hafi látið liðsfélaga sína heyra það fyrir dapran varnarleik en staðan í hálfleik var 4:1, Tottenham í vil. 

Fernandes var tekinn af velli í hálfleik og hafa enskir fjölmiðlar meðal annars sagt að Portúgalinn sé búinn að missa trúnna á Ole Gunnar Solskjær sem þjálfara liðsins.

„Það sem hefur verið skrifað um þetta mál er hrein og bein lygi,“ sagði Fernandes í samtali við Sport TV á dögunum.

„Fyrst var sagt að ég hefði rifast við liðsfélaga mína sem er rangt. Svo var skrifað að ég væri búinn að missa trú á stjóranum. Það var rangt líka.

Þessi skrif áttu mjög augljóslega að koma okkur og allri grúppunni úr jafnvægi. Ég fór af velli því leikurinn var búinn og stjórinn vildi hvíla mig fyrir átökin framundan. Ég var ekki sáttur en svona er það stundum.

Ekki nota mitt nafn, nafn liðsfélaga mína eða þjálfarans til þess að skaða Manchester United,“ bætti Fernandes við.

mbl.is