Nágrannaslagur sem breyttist í vígvöll (myndskeið)

Everton tekur á móti Liverpool í nágrannaslag ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu á laugardaginn kemur klukkan 11:30.

Everton er með fullt hús stiga eða 12 stig eftir fyrstu fjóra leiki sína í efsta sæti deildarinnar á meðan Liverpool er með 9 stig í fimmta sætinu.

Michael Owen er uppalinn hjá Liverpool og lék með liðinu frá 1996 til ársins 2004 en hann þekkir það vel að spila í nágrannaslagnum gegn Everton.

„Þetta voru leikirnir sem maður leitaði sérstaklega að þegar að leikjadagskráin var birt í upphafi tímabils,“ sagði Owen.

„Það var alltaf frábært að mæta Everton á Anfield á okkar heimavelli en var líka ótrúleg tilfinning að spila á heimavelli Everton í gini ljónsins og reyna að ná í úrslit þar.

Það skipti ekki alltaf öllu máli hvort liðið spilaði betri fótbolta því leikirnir áttu það til að breytast oft í hálfgerðan vígvöll,“ sagði Owen meðal annars.

Leikur Liverpool og Everton verður sýndur beint á Síminn Sport.

mbl.is