Nýi Liverpool-maðurinn bestur í Þjóðadeildinni

Diogo Jota sækir að marki Svía í leiknum í gærkvöld.
Diogo Jota sækir að marki Svía í leiknum í gærkvöld. AFP

Diogo Jota, sóknarmaður Portúgala, var besti leikmaðurinn í fjórðu umferð A-deildar Þjóðadeildar UEFA í fótbolta sem leikin var í vikunni, samkvæmt tölfræðivefnum whoscored.com.

Þar fá allir leikmenn einkunn fyrir útreiknaða frammistöðu sína og Jota, sem skoraði tvívegis í 3:0 sigri Portúgala á Svíum eftir að hafa tekið stöðu Cristiano Ronaldo í liðinu, var hæstur allra með 9,39 í einkunn.

Liverpool keypti Jota af Wolves í haust fyrir 40 milljónir punda og hann skoraði í fyrsta leik sínum, 3:1 sigurleik gegn Arsenal 28. september.

Næstur á eftir honum var Robert Lewandowski sem skoraði tvö marka Pólverja í 3:0 sigri á Bosníu en hann fékk 9,22 í einkunn.

Næstir á eftir þeim komu svo Remo Freuler frá Sviss með 8,88 og Þjóðverjinn Kai Havertz, leikmaður Chelsea, með 8,86 í einkunn.

mbl.is