Reiknar með Jóhanni gegn WBA

Jóhann Berg Guðmundsson í leiknum við Rúmena.
Jóhann Berg Guðmundsson í leiknum við Rúmena. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sean Dyche knattspyrnustjóri Burnley kveðst reikna með því að geta teflt Jóhanni Berg Guðmundssyni fram þegar lið hans  sækir WBA heim í ensku úrvalsdeildinni á mánudaginn.

Jóhann lék með íslenska landsliðinu gegn Rúmeníu síðasta fimmtudag, stærstan hluta leiksins, en kom ekkert við sögu í hinum tveimur leikjunum, gegn Dönum og Belgum. Hann er nýkominn af stað eftir meiðsli sem hann varð fyrir í byrjun tímabilsins og hafði spilað einn leik fyrir landsleikjahléið.

„Við erum bjartsýnir með Jóhann. Hann var stífur í náranum þegar hann kom aftur en við erum vongóðir um að það sé úr sögunni þannig að við ættum ekki að þurfa að hafa miklar áhyggjur," sagði Dyche á fréttamannafundi í dag.

Burnley hefur byrjað tímabilið illa og tapað þremur fyrstu leikjum sínum í deildinni, gegn Leicester, Southampton og Newcastle. Jóhann lék síðustu 25 mínúturnar í leiknum gegn Newcastle.

mbl.is