Sakar Ronaldo um brot á sóttvarnareglum

Cristiano Ronaldo greindist með kórónuveiruna á síðasta þriðjudag.
Cristiano Ronaldo greindist með kórónuveiruna á síðasta þriðjudag. AFP

Vincenzo Spadafora, íþróttamálaráðherra Ítalíu, segir að Cristiano Ronaldo, leikmaður Juventus og portúgalska landsliðsins, hafi brotið sóttvarnareglur á dögunum þegar hann flaug frá Lissabon til Tórínó.

Ronaldo greindist með kórónuveiruna síðasta þriðjudag og tók því ekki þátt í landsleik Portúgals og Svíþjóðar í A-deild Þjóðadeildarinnar en leiknum lauk með 3:0-sigri Portúgals.

Í staðinn flaug hann aftur heim til Ítaíu þar sem hann er búsettur og segir Spadafora þetta vera klárt brot á sóttvarnareglum.

„Hann þurfti sérstakt leyfi frá heilbrigðisvöldum til þess að komast inn í landið og ef hann fékk það ekki er þetta brot á sóttvarnareglum myndi maður halda,“ sagði Spadafora í samtali við ítalska fjölmiðla.

Juventus hefur hins vegar maldað í móinn og sagt að Ronaldo hafi fengið sérstakt leyfi til þess að ferðast aftur til Ítalíu.

Sóknarmaðurinn verður fjarri góðu gamni um helgina þegar liðið heimsækir Crotone í ítölsku A-deildinni en hann þarf að vera næstu tíu dagana í sóttkví ásamt því að fá neikvæða niðurstöðu úr næsta kórónuveiruprófi.

mbl.is