Skiljanlegt því hann vann mig aldrei

Stundum þurfti að skilja Arsene Wenger og José Mourinho að …
Stundum þurfti að skilja Arsene Wenger og José Mourinho að á hliðarlínunni þegar þeim lenti saman. AFP

José Mourinho knattspyrnustjóri Tottenham var skjótur til svars á fréttamannafundi sínum í dag þegar hann var spurður um hvort hann vissi hversvegna Arsene Wenger, fyrrverandi stjóri Arsenal, nefnir hann ekki á nafn í nýútkominni bók sinni, Líf mitt í rauðu og hvítu.

„Vegna þess að hann vann mig aldrei! Þú skrifar ekki kafla um tólf til fjórtán leiki sem þú vannst ekki, svo hversvegna ætti hann að minnast á mig í bókinni? Bók er til þess að gera þig ánægðan og stoltan svo ég skil þetta fullkomlega!" sagði Portúgalinn og glotti.

Wenger og Mourinho elduðu löngum grátt silfur saman og rifrildi þeirra á milli á hliðarlínunni í leikjum Arsenal og Chelsea, og síðan Arsenal og Manchester United voru oft myndefni og fréttaefni. Mourinho náði ótrúlega góðum árangri gegn Wenger í leikjum á milli liða þeirra eins og hann vitnar sjálfur til.

Sjálfur hefur Wenger sagt að Mourinho sé ekki nefndur í bókinni því hún eigi að vera á jákvæðum nótum! Hann fjallar mikið um viðureignir sínar við Alex Ferguson, stjóra Manchester United og sagði m.a.: „Samkeppnin fær þig til að hata andstæðinginn. Ég held að Ferguson hafi vissulega hatað mig og ég hataði hann líka stundum," sagði Wenger við kynningu á bókinni en sagði að hann hefði jafnframt líka borið mikla virðingu fyrir Ferguson.

Mourinho sagði í viðtali fyrir tveimur árum að hann sæi eftir ýmsu sem hann hefði sagt við Wenger í hita leiksins og eflaust væri það gagnkvæmt hjá Frakkanum.

mbl.is