Einhver ákvað að þetta væri rangstaða

Jürgen Klopp á hliðarlínunni í dag.
Jürgen Klopp á hliðarlínunni í dag. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var svekktur eftir 2:2-jafntefli liðsins gegn Everton í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Goodison Park í Liverpool í dag.

Liverpool komst tvívegis yfir í leiknum með mörkum frá þeim Sadio Mané og Mohamed Salah og þá skoraði Jordan Henderson mark í uppbótartíma sem VAR dæmdi af vegna rangstöðu.

„Ég er mjög ánægður með frammistöðu liðsins í leiknum,“ sagði Klopp í samtali við BT SPort eftir leik.

„Bæði lið spiluðu mjög vel en við stjórnuðum ferðinni frá fyrstu mínútu sem er jákvætt þar sem þeir eru fullir sjálfstrausts í efsta sæti deildarinnar.

Þetta er líklegast einn best spilaði leikur á útivelli hjá liðinu síðan að ég tók við liðinu. Ég vildi sigur en ég er ánægður með það hvernig leikmenn svöruðu fyrir tapið gegn Aston Villa.

Liverpool virtist hafa tryggt sér sigur þegar Jordan Henderson skoraði í uppbótartíma.

„Ég sá engan rangstöðu í þessu marki. Það er ekkert óeðlilegt kannski þar sem það var einhver sem ákvað að þetta væri rangstaða,“ bætti Klopp pirraður við.

mbl.is