Skrítinn endir á knattspyrnuleik

Dominic Calvert-Lewin skorar jöfnunarmark Everton í seinni hálfleik.
Dominic Calvert-Lewin skorar jöfnunarmark Everton í seinni hálfleik. AFP

Dominic Calvert-Lewin, framherji Everton, var nokkuð sáttur eftir 2:2-jafntefli liðsins gegn Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Goodison Park í Liverpool í dag.

Everton lenti tvívegis undir í leiknum en þeir Michael Keane og Calvert-Lewin sáu um að jafna metin fyrir bláliða í leiknum en sigurmark Jordan Henderson í uppbótartíma var dæmt af vegna rangstöðu.

„Þetta var mjög skrítinn endir á knattspyrnuleik,“ sagði Calvert-Lewin í samtali við BT Sport.

„Eins og við var að búast tókust menn á inn á vellinum eins og venjan er í nágrannaslag. Þegar allt kemur til alls er ég sáttur með stigið eftir að hafa lent tvívegis undir.

Við ætluðum okkur sigur eftir langa bið eftir sigri gegn Liverpool og mér fannst við fá tækifæri til þess í dag en við nýttum ekki tækifærin okkar nægilega vel í sókninni.

Við erum áfram taplausir í deildinni og markmiðið er að sjálfsögðu að halda því áfram. Við höfum bætt okkur mikið sem lið og leiðin liggur upp á við hjá okkur,“ bætti framherjinn við.

mbl.is