Solskjær finnur fyrir pressunni

Ole Gunnar Solskjær hefur stýrt liði Manchester United frá árinu …
Ole Gunnar Solskjær hefur stýrt liði Manchester United frá árinu 2018. AFP

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, viðurkennir að hann sé farinn að finna fyrir pressu í starfi.

Solskjær var ráðinn tímabundinn stjóri United í desember 2018 en fékk svo þriggja ára samning hjá félaginu í mars 2019 eftir að hafa stýrt liðinu til sigurs í fjórtán leikjum af nítján.

United hefur ekki farið vel af stað á leiktíðinni og er í sextánda sæti deildarinnar með 3 stig eftir þrjá leiki.

„Það er pressa á mér og ég finn fyrir henni,“ sagði Solskjær á blaðamannafundi í vikunni fyrir leik United og Newcastle í ensku úrvalsdeildinni í dag.

„Ég er knattspyrnustjórinn og ég ber ábyrgðina á öllu því sem gerist hjá félaginu.

Við byrjuðum líka illa á síðustu leiktíð, unnum bara fyrstu tvo leikina af níu, en ég hef verið hluti af þessu félagi lengi og veit hvernig þetta gengur fyrir sig.

Það er alltaf pressa hjá þessu félagi, ég er vanur því, og þetta er líka tækifæri fyrir mig til þess að sýna úr hverju ég er gerður,“ bætti Solskjær við.

mbl.is