United nýtti sér ákvæði í samningi Pogba

Paul Pogba er samningsbundinn United til sumarsins 2022.
Paul Pogba er samningsbundinn United til sumarsins 2022. AFP

Enska knattspyrnufélagið Manchester United hefur framlengt samning sinn við franska miðjumanninn Paul Pogba en það er Sky Sports sem greinir frá þessu.

Samningur Pogba átti að renna út sumarið 2021 en leikmaðurinn var með ákvæði í samningi sínum sem gerði United kleift að framlengja samninginn hans um eitt ár til viðbótar.

Núverandi samningur hans gildir því til sumarsins 2022 en Pogba hefur verið reglulega orðaður við brottför frá félaginu, undanfarin ár.

Pogba er orðinn 27 ára gamall en hann hefur meðal annars verið orðaður við bæði Real Madrid, Juventus og Barcelona í undanförnum félagaskiptagluggum.

United var tilbúið að selja Pogba í sumar fyrir 100 milljónir punda en ekkert félag var tilbúið að borga uppsett verð fyrir leikmanninn.

Spænskir fjölmiðlar greindu frá því á dögunum að Pogba væri efstur á óskalista Barcelona en United gæti selt miðjumanninn í sumar fyrir uppsett verð.

mbl.is