Forráðamenn Liverpool ósáttir með fréttaflutning

Virgil van Dijk fór meiddur af velli eftir ljótt samstuð …
Virgil van Dijk fór meiddur af velli eftir ljótt samstuð við Jordan Pickford. AFP

Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Liverpool eru allt annað en sáttir með fjölmiðlamenn á Englandi.

Virgil van Dijk, varnarmaður Liverpool, fór meiddur af velli í 2:2-jafntefli Liverpool og Everton á Goodison Park í Liverpool í gær.

Van Dijk lenti í slæmu samstuði við Jordan Pickford sem keyrði inn í varnarmanninn og gat miðvörðurinn ekki haldið leik áfram.

Richard Keys hjá beIn Sports sagði í frétt sinni um málið að Van Dijk væri með sködduð liðbönd og yrði frá í sjö til átta mánuði.

Forráðamenn Liverpool eru afar ósáttir með þetta þar sem félagið bíður ennþá eftir niðurstöðum úr myndatökum sem leikmaðurinn gekkst undir í gær.

Forráðamenn Liverpool, sem er ríkjandi Englandsmeistari, voru einnig ósáttir með myndbandsdómgæsluna í gær en Jordan Henderson skoraði mark í uppbótartíma sem fékk ekki að standa vegna rangstöðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert