Vanur að spila þó hann finni til

Virgil van Dijk haltraði af velli í gær.
Virgil van Dijk haltraði af velli í gær. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur áhyggjur af Virgil van Dijk, varnarmanni liðsins, en miðvörðurinn fór meiddur af velli í 2:2-jafntefli liðsins gegn Everton á Goodison Park í Liverpool í gær.

Van Dijk lenti í samstuði við Jordan Pickford, markvörð Everton, strax á 6. mínútu. Hollendingurinn reyndi að halda leik áfram en þurfti að lokum að játa sig sigraðan og yfirgefa völlinn.

Enskir fjölmiðlar hafa skrifað mikið um hugsanleg meiðsli Van Dijks en hann fór í myndatöku á spítala í Liverpool gær.

„Ég veit ekki mikið en ég veit að þetta er ekki gott,“ sagði Klopp aðspurður um meiðsli Van Dijks.

„Hann hefur spilað ég veit ekki hversu marga leiki í röð fyrir okkur. Hann er vanur að spila þó hann finni til.

Hann gat hins vegar ekki haldið áfram í gær og það er mikið áhyggjuefni,“ bætti Klopp við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert