Forföll í Parísarferðinni hjá United

Bruno Fernandes verður fyrirliði Manchester United í París.
Bruno Fernandes verður fyrirliði Manchester United í París. AFP

Manchester United verður ekki með sitt sterkasta lið annað kvöld í leiknum gegn frönsku meisturunum París SG í fyrstu umferð riðlakeppni Meistaradeildarinnar í fótbolta.

Harry Maguire, Edinson Cavani, Mason Greenwood, Eric Bailly og Jesse Lingard fóru ekki með liðinu til Parísar í dag. Þeir eru allir meiddir, nema Cavani sem er nýkominn úr sóttkví eftir að hafa komið til liðs við félagið í byrjun mánaðarins. 

Ole Gunnar Solskjær knattspyrnustjóri United skýrði frá því að Bruno Fernandes yrði fyrirliði liðsins í París í forföllum Maguire.

mbl.is