Jóhann kominn í byrjunarliðið - liðsfélagi smitaður

Jóhann Berg Guðmundsson í leik Íslands og Rúmeníu á dögunum.
Jóhann Berg Guðmundsson í leik Íslands og Rúmeníu á dögunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jóhann Berg Guðmundsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, verður í byrjunarliði Burnley í dag þegar lið hans sækir WBA heim í ensku úrvalsdeildinni.

Viðureign liðanna hefst á The Hawthorns klukkan 16.30 og er sýnd beint á Símanum Sport.

Jóhann var í byrjunarliðinu í tveimur síðustu leikjum tímabilsins 2019-20 í júlímánuði en meiddist rétt fyrir fyrsta leik í haust. Hann missti fyrir vikið af tveimur fyrstu leikjunum en kom síðan inná sem varamaður í síðasta leik.

Burnley hefur byrjað tímabilið illa og tapað þremur fyrstu leikjum sínum, en liðið er það eina í deildinni sem ekki er komið með stig. WBA er á svipuðum slóðum með eitt stig úr fyrstu fjórum leikjum sínum.

Phil Bardsley er ekki með Burnley í dag en félagið tilkynnti rétt í þessu að hann hefði greinst með kórónuveiruna og væri kominn í einangrun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert