Góðar fréttir fyrir Liverpool

Alisson er að koma til eftir meiðsli.
Alisson er að koma til eftir meiðsli. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, færði stuðningsmönnum félagsins góðar fréttir á blaðamannafundi í dag. Tilkynnti Þjóðverjinn að brasilíski markvörðurinn Alisson væri byrjaður að æfa á ný eftir axlarmeiðsli. 

Væntanlega eru enn 2-4 vikur þangað til Alisson getur tekið þátt í keppnisleik. Naby Keita gæti leikið með liðinu gegn Ajax í Meistaradeildinni annað kvöld, en hann er búinn að jafna sig á kórónuveirunni. Þá er Alex Oxlade-Chamberlain allur að koma til eftir slæm hnémeiðsli. 

„Alisson lítur vel út. Hann er byrjaður að grípa boltann, en við verðum að vera þolinmóðir með hann. Hann segist vera betri með hverjum deginum. Keita æfði svo í gær og leit mjög vel út. Oxlade er svo allur að koma til,“ sagði Klopp. 

Hann segist óviss með þátttöku Thiago Alcantara í leiknum gegn Ajax. „Hann fékk þungt högg, en meiðsli hans eru ekki næstum því jafn slæm og hjá van Dijk. Ég veit hins vegar ekki enn hvort hann verður klár gegn Ajax,“ sagði Jürgen Klopp.

mbl.is