Kemur VAR-dómaranum til varnar

Jordan Pickford fer afar harkalega í Virgil van Dijk.
Jordan Pickford fer afar harkalega í Virgil van Dijk. AFP

Knattspyrnudómarinn David Coote sá um myndbandsdómgæslu er Liverpool heimsótti Everton í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta á laugardaginn var.

Voru Liverpool-menn allt annað en sáttir við myndbandsdómgæsluna í leiknum og óskuðu forráðamenn félagsins eftir rannsókn á dómgæslunni eftir leik.

Ann­ars veg­ar braut Jordan Pickford í marki Everton mjög illa á Virgil van Dijk inn­an teigs í fyrri hálfleik, en í stað þess að fá víti var dæmd rangstaða á Hol­lend­ing­inn sem verður lengi frá vegna meiðsla eftir brotið. 

Hins veg­ar skoraði Jor­d­an Hend­er­son í upp­bót­ar­tíma í stöðunni 2:2, en markið var dæmt af vegna rang­stöðu, en Sa­dio Mané var ör­fá­um milli­metr­um fyr­ir inn­an að mati mynd­bands­dóm­ara. 

Vildi Liverpool að Pickford fengi rautt spjald fyrir brotið á van Dijk sem var afar ljótt og hefur Coote verið sakaður um að kunna ekki reglurnar. Hafði hann ekki áhuga á að skoða atvikið sérstaklega þar sem búið var að dæma rangstöðu, en staðreyndin er sú að Pickford átti að fá rautt spjald, þrátt fyrir að rangstaða var dæmd.

Talsmaður dómaranefndar ensku deildarinnar segir það af og frá að Coote kunni ekki reglurnar, hann hafi einfaldlega metið það sem svo að Pickford hafi ekki átt skilið rautt spjald. Verður Pickford ekki refsað fyrir tæklinguna, þar sem dómararnir sáu brotið og töldu það ekki verðskulda rautt spjald. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert