Vill að Liverpool horfi til Þýskalands

Dayot Upamecano.
Dayot Upamecano. AFP

Jamie Carragher, fyrrverandi knattspyrnumaður Liverpool og núverandi sjónvarpsmaður hjá Sky, vill sjá félagið festa kaup á Dayot Upamecano til að leysa Virgil van Dijk af hólmi, en van Dijk verður lengi frá vegna hnémeiðsla. 

Van Dijk meiddist eftir ljóta tæklingu hjá Jordan Pickford í leik Liverpool og Everton á laugardaginn var og þarf að fara í aðgerð. Liverpool seldi Dejan Lovren í sumar og eru þeir Joe Gomez og Joël Matip einu miðverðir liðsins sem eru heilir heilsu. 

„Það eru allir að tala um ungan strák hjá Leipzig, Dayot Upamecano, hann er ekki eins hávaxinn og van Dijk og örugglega ekki eins góður í loftinu, en ef félagið vill hann þarf að kaupa hann strax 1. janúar,“ skrifar Carragher á vefsíðu Sky. 

Hann bendir á að þrátt fyrir styrkleika van Dijk hafi vörn Liverpool ekki verið fullkomin. „Liðið hefur haldið fimm sinnum hreinu í síðustu 23 leikjum og van Dijk hefur spilað alla þessa leiki. Við sáum Aston Villa skora sjö mörk og Leeds þrjú. Það þarf að kaupa sterkan leikmann,“ skrifar Carragher, en hann lék allan ferilinn með Liverpool. 

mbl.is