Cech í hópnum hjá Chelsea

Petr Cech var sigursæll hjá Chelsea.
Petr Cech var sigursæll hjá Chelsea. AFP

Tékkinn Petr Cech er skráður á 25 manna leikmannalista Chelsea í ensku úrvalsdeildinni þrátt fyrir að markvörðurinn hafi lagt hanskana á hilluna eftir næstsíðustu leiktíð.

Cech er 38 ára og hefur unnið sem ráðgjafi hjá Chelsea eftir að hanskarnir fóru á hilluna. Cech vann þrettán titla með Chelsea á þeim ellefu árum sem hann lék með liðinu, en hann lék síðast með Chelsea árið 2015, áður en hann fór til Arsenal. 

Síðasti leikur Cech var einmitt gegn Chelsea í úrslitaleik Evrópudeildarinnar á næstsíðustu leiktíð þar sem Chelsea fagnaði sigri. Er Cech einn fjögurra markvarða í hópnum en Kepa Arrizabalaga, Edouard Mendy og Willy Caballero eru þar sömuleiðis. 

„Petr hefur gaman af því að æfa og hann er til staðar ef það kemur krísa. Ég á ekki von á því að hann spili, en hann er enn í formi og enn ungur. Hann hefði getað spilað lengur,“ sagði Frank Lampard, knattspyrnustjóri Chelsea, um tíðindin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert