Fólk er þreytt á hversu langan tíma glápið tekur

Damir Skomina fyrir framan skjáinn á Laugardalsvellinum í leik Íslands …
Damir Skomina fyrir framan skjáinn á Laugardalsvellinum í leik Íslands og Rúmeníu á dögunum. Síðar benti hann á vítapunktinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þegar horft er yfir sviðið á samfélagsmiðlum þá tjá íþróttaunnendur sig reglulega um VAR, myndbandstæknina í knattspyrnunni. Ekki síst þau sem fylgjast grannt með ensku knattspyrnunni. Ekki er óvarlegt að segja að óánægja ríki með hvernig til hefur tekist hjá Englendingunum hvað notkun á þessari tækni varðar. Í þriðjudagsblaðinu skrifaði fréttastjóri íþróttafrétta á Morgunblaðinu, Víðir Sigurðsson, til að mynda Bakvarðarpistil um málið þar sem hann sagði meðal annars að „Englendingar væru á algjörum villigötum“.

En ekki snertir þetta einungis þá sem spila knattspyrnu í ensku úrvalsdeildinni því VAR kom til Íslands í fyrsta skipti á dögunum þegar Ísland vann Rúmeníu í umspili um sæti á EM karla. Ísland vann 2:1 og skoraði Rúmenía mark úr vítaspyrnu. Dómarinn komst að þeirri niðurstöðu að dæma vítaspyrnu eftir að hafa horft á skjáinn drykklanga stund og vakti það töluverða athygli hér heima.

Morgunblaðið hafði samband við Gunnar Jarl Jónssson, fyrrverandi knattspyrnudómara, en Gunnar er mikill áhugamaður um íþróttina og hefur spilað sjálfur og þjálfað yngri flokka. Blaðið leitaði álits hjá Gunnari á því hvernig til hefði tekist.

„Ef ég horfi aðeins um öxl þá var ég enginn sérstakur aðdáandi þegar til stóð að setja VAR á laggirnar. Maður er ef til vill pínulítið af gamla skólanum hvað það varðar og finnst dómgæslan vera hluti af leiknum hvort sem hún er góð eða slæm. Sjálfur var ég enn að dæma þegar þetta var og ef til vill hafði það eitthvað að segja. Ljóst var að störfum myndi fækka en á þeim tíma voru endalínudómarar við störf í leikjum erlendis og við Íslendingar fengum stundum slík verkefni.

Þegar myndbandstæknin hafði verið prófuð í Álfukeppninni árið 2017 þá hafði ég hreinlega miklar áhyggjur af þessu því það gekk skelfilega. En það verður að segjast eins og er að þetta gekk bara mjög vel á HM í Rússlandi árið 2018 og þá tók ég VAR í sátt ef svo má segja. Þá hafði mönnum tekist að laga eitt og annað enda varð maður ekki var við óánægju eftir þá keppni. Ég skil einnig hvað menn eru að hugsa með þvi að nýta tæknina. Leikirnir eru orðnir hraðari en áður og hlutverk dómarans er því mun erfiðara. Þess vegna er ekki skrítið að menn velti því fyrir sér hvort hægt sé að hjálpa dómurum. Til dæmis varðandi atvik sem dómarinn snýr baki í svo eitthvað sé nefnt,“ segir Gunnar en er ekki hrifinn af framkvæmdinni hjá Englendingunum.

VAR er komið til að vera

„Ég stökk kannski ekki á VAR-vagninn eftir HM í Rússlandi en ég fann þá að þetta væri komið til að vera. Ekki yrði aftur snúið. Í ensku úrvalsdeildinni hefur þetta bara gengið illa ef maður á að vera alveg heiðarlegur. Vandamálið finnst mér vera hversu langt menn seilast eftir því að finna eitthvað. Fyrir mér ætti þetta að snúast um eitthvað sem er augljóst, eða augljós mistök hjá dómaranum. Það virðist ekki ná í gegn í Englandi. Ef þú þarft að skoða atvik oft, þá er ekki augljóst hvað gerðist, og þá á bara að halda áfram að mínu mati án þess að grípa inn í. Dómarinn veltir þessu fyrir sér í langan tíma og það fer líklega mest í taugarnar á fólki eins og ég skynja þetta á samfélagsmiðlum.“

Greinina í heild sinni er að finna í Morgunblaðinu í dag. 

Gunnar Jarl Jónsson var um tíma alþjóðadómari.
Gunnar Jarl Jónsson var um tíma alþjóðadómari. mbl.is/Ómar Óskarsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »