Hann er miður sín yfir að hafa slasað van Dijk

Jordan Pickford rennir sér í Virgil van Dijk í leik …
Jordan Pickford rennir sér í Virgil van Dijk í leik Everton og Liverpool. AFP

Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Everton, segir að markvörðurinn Jordan Pickford sé miður sín eftir að hafa slasað Virgil van Dijk illa í leiknum gegn Liverpool í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi.

Van Dijk fór af velli eftir nokkurra mínútna leik og í ljós kom að krossband hafði skaddast þannig að hann þurfti að fara í uppskurð og gæti misst af öllu tímabilinu.

„Svo það sé á hreinu, þá erum við allir afar leiðir yfir meiðslunum sem Virgil van Dijk varð fyrir og allir vonast til þess að hann nái sér fljótt og vel. Hann lenti í þessum árekstri við Jordan Pickford, sem tímasetti tæklinguna illa. En hraðinn er svo mikill í deildinni að það er auðvelt að vera örlítið of seinn. Jordan var aðeins of seinn en hann ætlaði að ná til boltans, ekki að meiða Virgil van Dijk.

Að segja að þetta hafi verið ásetningur, og hitt og annað í þeim dúr, er einum og mikið af því góða fyrir minn smekk. Virgil van Dijk veit það sjálfur. Jordan er virkilega leiður, hann er miður sín yfir að hafa meitt hann. Þetta var hörð tækling, illa ímasett, en slíkt gerist í fótbolta," sagði Carlo Ancelotti.

mbl.is