Hrósar nýjasta leikmanni Arsenal í hástert

Thomas Partey var í byrjunarliði Arsenal í fyrsta skipti í …
Thomas Partey var í byrjunarliði Arsenal í fyrsta skipti í kvöld. AFP

Mikel Arteta knattspyrnustjóri Arsenal hrósaði Thomas Partey nýjasta leikmanni liðsins í hástert eftir 2:1-sigurinn á Rapid Wien í Evrópudeildinni í kvöld. 

Partey var í fyrsta skipti í byrjunarliði Arsenal eftir félagaskiptin frá Atlético Madríd á dögunum og spænski stjórinn var ánægður með framlag miðjumannsins. 

„Hann leit mjög vel út og var öruggur. Hann stjórnaði ferðinni á miðjunni og sóknarmennirnir gátu sótt án þess að hafa áhyggjur því hann var fyrir aftan þá. Hann var frábær í dag og hann á bara eftir að verða betri,“ sagði Arteta á blaðamannafundi eftir leikinn. 

Arsenal greiddi 40 milljónir punda fyrir Partey, en honum hefur verið líkt við Arsenal-goðsögnina Patrick Vieira. 

mbl.is