Þrír lykilmenn Everton verða ekki með

James Rodriguez í baráttu við Sadio Mané í leiknum gegn …
James Rodriguez í baráttu við Sadio Mané í leiknum gegn Liverpool. AFP

Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Everton, segir að lið sitt verði nær örugglega án tveggja lykilmanna þegar það sækir Southampton heim í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn kemur.

James Rodriguez og Seamus Coleman meiddust báðir í leiknum við Liverpool um síðustu helgi. Coleman þurfti að fara af velli eftir hálftíma leik og Ancelotti sagði að James hefði meiðst í návígi við Virgil van Dijk á upphafsmínútum leiksins.

Að auki verður sóknarmaðurinn Richarlison í leikbanni eftir að hafa fengið rauða spjaldið undir lok leiksins.

Hinsvegar hefði miðjumaðurinn Allan komist heill í gegnum leikinn eftir að hafa verið meiddur á nára í aðdraganda hans og ætti að vera í lagi. Varnarmaðurinn Jonjoe Kenny væri líka kominn inn í hópinn á ný eftir meiðsli.

„Við erum með marga valkosti hvað varðar að fylla í skörðin hjá Richarlison og James," sagði Ancelotti en auk Gylfa Þór Sigurðssonar hafa m.a. Alex Iwobi og Bernard mátt sætta sig við setu á varamannabekknum í fyrstu leikjum tímabilsins.

Everton er efst í deildinni með 13 stig eftir fimm umferðir. Gylfi hefur einu sinni verið í byrjunarliði hjá Ancelotti í þessum fimm leikjum en komið tiltölulega snemma inn á sem varamaður í hinum fjórum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert