Þriðji markvörðurinn fær líklega tækifæri

Steve Bruce á hliðarlínunni hjá Newcastle.
Steve Bruce á hliðarlínunni hjá Newcastle. AFP

Steve Bruce knattspyrnustjóri Newcastle segir að flest bendir til þess að þriðji markvörður liðsins muni spila leikinn gegn Wolves í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn.

Aðalmarkvörðurinn Martin Dubravka er úr leik þar sem hann þurfti að fara í aðgerð á ökkla. Varamarkvörðurinn Karl Darlow meiddist í leik liðsins gegn Manchester United um síðustu helgi, þegar hann lenti í hörðum árekstri við Marcus Rashford, framherja United.

Bruce sagði í dag að tvísýnt væri hvort Darlow yrði leikfær á sunnudaginn en það yrði að koma í ljós. Annars fer þriðji markvörður liðsins, Mark Gillespie, í markið og fær þá eldskírn sína í úrvalsdeildinni, 28 ára gamall.

Gillespie ólst upp hjá Newcastle en komst þá ekki í aðalliðshópinn og hefur spilað víða í neðri deildunum, sem og með Motherwell í Skotlandi. Hann á að baki þrjá bikarleiki með Newcastle.

„Ég hef engar áhyggjur af Mark, hann á þrjá leiki að baki og er því í leikæfingu. Hann er reyndur markvörður sem á að baki landsleiki fyrir Skotland svo hann mun standa sig vel," sagði Bruce.

Newcastle er með 7 stig eftir fyrstu fimm umferðir úrvalsdeildarinnar og er í 13. sæti en tapaði 1:4 fyrir Manchester United á heimavelli um síðustu umferð eftir að staðan var 1:1 þar til rétt fyrir leikslok.

mbl.is