Mourinho kom mjög illa fram við mig

Andre Schurrle í leik með Chelsea.
Andre Schurrle í leik með Chelsea. AFP

Þjóðverjinn André Schürrle lagði knattspyrnuskóna á hilluna aðeins 29 ára gamall en hann lauk ferlinum með Spartak Moskvu í Rússlandi.

Sóknarmaðurinn gagnrýnir José Mourinho harðlega, en þeir unnu saman hjá Chelsea á sínum tíma. Hann segir Mourinho ástæðu þess að hann entist aðeins í tvö ár hjá Chelsea og náði ekki að springa út.

Hann er grimmur,“ sagði Schürrle við Joko Winterscheidt á Youtube. „Ég hugsaði oft með mér hvers vegna hann hagar sér svona, hvers vegna kemur hann svona fram við mig? Af hverju gerir hann svona við fólk? Ég gat ekki framkvæmt það sem hann bað mig um og í staðinn kom hann mjög illa fram við mig og setti mikla pressu á mig. Þetta var mjög erfitt.

Ég var oft við það að gefast upp þegar ég var að keyra heim eftir fundi með honum. Hann setti allt of mikla pressu á mig. Hann setti ákveðna hluti í höfuðið á mér sem var erfitt að meðtaka,“ sagði Schürrle.

mbl.is