Séní eða ónytjungur?

Mesut Özil horfir hugsi um öxl.
Mesut Özil horfir hugsi um öxl. AFP

Allt bendir til þess að Mesut Özil hafi leikið sinn síðasta leik fyrir Arsenal í ensku knattspyrnunni. Í vikunni kom fram að Þjóðverjinn er ekki í 25 manna hópi liðsins í úrvalsdeildinni fyrir yfirstandandi leiktíð og áður hafði verið kunngjört að hann væri heldur ekki í leikmannahópi liðsins í Evrópudeildinni.

Þetta sætir að vonum tíðindum enda hefur Özil verið ein af skærustu stjörnum liðsins frá því hann kom frá Real Madrid 2013 og er sagður launahæsti leikmaðurinn í sögu Arsenal með litlar 63 milljónir króna á viku og sjö hundrað þúsundum betur. Hann hlýtur því að vera dýrasti varaliðsmaður sparksögunnar en einu leikirnir sem Özil standa til boða í vetur eru með svokölluðu 23-ára liði félagsins. Samningur hans við Arsenal mun svo bara renna út í rólegheitunum næsta sumar.

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, hefur að vonum verið þráspurður um málið, ekki síst í vikunni, og svarar alltaf á sama veg; að hann hafi verið ráðinn til að safna stigum og ná árangri og fyrir vikið velji hann þá leikmenn í lið sitt sem hann telji líklegasta til að vinna leiki. Og Mesut Özil er augljóslega ekki í þeim hópi.

Annað hljóð í strokknum um áramót

Annað hljóð var í strokknum þegar Arteta tók við Arsenal-liðinu undir lok síðasta árs. Özil hafði þá um tíma verið úti í kuldanum hjá forvera hans og landa, Unai Emery, en Arteta dustaði um leið rykið af honum og átti Þjóðverjinn fast sæti í liðinu þangað til Englandsmótinu var frestað í byrjun mars vegna kórónuveirufaraldursins. Arteta fór fögrum orðum um Þjóðverjann og augljóst að hlýtt var á milli þeirra félaga en Arteta og Özil léku saman hjá Arsenal í þrjú ár, frá 2013 til 2016.

Eftir sparkhlé blasti allt önnur mynd við. Özil var aðeins einu sinni í leikmannahópi Arsenal á sumarvertíðinni og kom ekki inn á í þeim leik. Annars var hann hvergi að sjá og þegar Arsenal vann bikarinn á Wembley var Özil eins innilega fjarverandi og Stalín. Sparkskýrendur klóruðu sér í höfðinu og útbreidd skýring var sú að hann hefði einfaldlega komið illa undan sparkrofinu; hefði ekki haldið sér nógu vel við á þrekhjólinu heima. Ákvörðun Arteta um að velja hann ekki væri því alfarið byggð á faglegum röksemdum.

Hafi menn haldið að Özil myndi hressast, eins og Eyjólfur forðum, þegar hann komst út á völl var það öðru nær. Fram að þessu hefur hann ekki verið líklegur til að vera í leikmannahópi Arsenal og í vikunni tók félagið bara af skarið: „Þessi gæi kemur ekki til álita í okkar lið.“

Boltinn er hjá Mikel Arteta. Eða hvað?
Boltinn er hjá Mikel Arteta. Eða hvað? AFP


Hét félaginu hollustu 

Eins og fram hefur komið tjáði Özil sig sjálfur um málið á samfélagsmiðlinum Instagram í vikunni. Kvaðst hann vera reglulega vonsvikinn yfir því að vera ekki í úrvalsdeildarhópnum; hann hefði ást á félaginu og hefði heitið því hollustu þegar hann endurnýjaði samning sinn síðast fyrir tveimur árum. „Það hryggir mig að þetta hafi ekki verið endurgoldið,“ skrifar hann. „En eins og ég hef nú komist að þá er hollusta ekki á hverju strái lengur.“

Özil æfir enn með aðalliði Arsenal og lofar í færslunni að æfa áfram eins vel og hann getur. 

Ennfremur kveðst hann hafa verið á góðri siglingu í byrjun árs undir stjórn Arteta en síðan hafi eitthvað breyst „og mér var ekki lengur leyft að leika knattspyrnu fyrir Arsenal. Hvað meira get ég sagt?“

Er Özil hér að vísa í þá staðreynd að hann hafnaði beiðni Arsenal um að taka á sig 12,5% launalækkun í eitt ár í apríl síðastliðnum? Þrengt hefur að rekstrinum hjá Arsenal eins og öðrum knattspyrnufélögum í faraldrinum og sagði félagið þessa leið nauðsynlega til að vernda störf og létta róðurinn. Tvennum sögum fer af því hvort Özil hafi verið eini leikmaðurinn sem hafnaði beiðninni, sumar heimildir geta um tvo aðra, en hann er alltént sá eini sem hefur verið nafngreindur opinberlega. Hann svaraði því til á sínum tíma að hann hefði ekki tekið lækkunina á sig fyrir þær sakir að tillagan hefði verið óskýr og ekki ljóst í hvað peningarnir sem spöruðust ættu að fara. Þá hefði legið þessi ósköp á. Kvaðst hann fremur vera að hugsa um hagsmuni yngri leikmannanna í liðinu en sína eigin. Özil var harðlega gagnrýndur fyrir ákvörðun sína og meðal annars lét sjónvarpsmaðurinn og Arsenal-aðdáandinn Piers Morgan aursletturnar ganga yfir hann í þætti sínum. „Skammastu þín!“

Borgar laun lukkudýrsins

Hvort það var mórall eða eitthvað annað sem knúði dyra þá bauðst Özil nýverið til að greiða laun lukkudýrsins á Emirates-leikvanginum, Gunnersaurus, til að forða kappanum undan fallöxinni. Var það svo sem í takti við annað en Özil hefur verið duglegur að láta fé af hendi rakna til góðgerðarmála gegnum tíðina. Þannig lét hann verðlaunafé sitt frá HM í Brasilíu 2016 renna óskipt til veikra barna í Brasilíu svo þau gætu gengist undir skurðaðgerðir. Lukkudýrsgjörningurinn dugði þó skammt og líklega myndi það ekki einu sinni bjarga Özil úr klípunni að bjóðast til að greiða laun Arteta sjálfs. Svo virðist sem afstöðu knattspyrnustjórans verði ekki haggað. Nú, eða þá eigendanna, eins og virðist líklegri skýring í ljósi þess sem hér hefur verið rakið. Kroenke-feðgarnir, Þögli-Stan og Josh, hafa talað vestur í Ameríku. Og hafi þeir komist að niðurstöðu verður kúrekum ekki haggað. Jíha!

Annarri skýringu hefur verið haldið á lofti í þessu sambandi en Özil, sem er múslimi, kom Arsenal í bobba í desember síðastliðnum þegar hann gagnrýndi Kínastjórn opinberlega fyrir meðferð hennar á Uigurs-múslimum í landinu. Brugðust Kínverjar vondir við og tók ríkissjónvarpið þar í landi meira að segja leik Arsenal og Manchester City af dagskrá. Arsenal neyddist til að senda frá sér yfirlýsingu þess efnis að það tæki ekki undir ummæli Özils enda væri það knattspyrnufélag en ekki stjórnmálaflokkur. Þessi skýring verður þó að teljast langsótt vegna tímasetningarinnar. Özil lék fjölda leikja í byrjun árs eftir þessa uppákomu.

Recep Tayyip Erdogan er náinn vinur mannvinsins Özils.
Recep Tayyip Erdogan er náinn vinur mannvinsins Özils. AFP


Özil er yfirlýstur aðgerðasinni og mannvinur. Í yfirlýsingunni í vikunni kveðst hann munu halda áfram hér eftir sem hingað til að berjast gegn ómennsku og fyrir réttlæti í heiminum. Hann er þó ekki óumdeildur í þeim efnum, sérstaklega hefur náin vinátta þeirra Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta farið fyrir brjóstið á sumum. Ekki fylgir sögunni hvort Özil er málkunnugur Róberti Spanó.

Mídas eða Sadím?

En aftur að knattspyrnunni. Vel má spyrja sig hvort Mesut Özil eigi yfir höfuð erindi í lið Arsenal í dag. Enginn efast um snilligáfu hans, að þræða nálaraugað og leggja upp færi og mörk á silfurfati fyrir félaga sína, en tölfræðin bendir til þess að honum hafi hressilega fatast flugið á umliðnum árum. Veturinn 2015-16 var hann með sex mörk og nítján stoðsendingar í úrvalsdeildinni (aðeins Thierry Henry og Kevin De Bruyne eiga fleiri stoðsendingar á einum vetri) en á síðustu leiktíð skoraði hann aðeins eitt mark og lagði upp tvö. Það segir sína sögu, þó hann hafi sannarlega spilað minna í fyrra en 2015-16.

Svo er það hin hliðin á peningnum; Özil hefur tilhneigingu til að verða að vofu þegar lið hans er ekki með knöttinn. Gerir lítið sem ekkert gagn. Það verður sífellt erfiðara að komast upp með slíkt og hreinum og ómenguðum lúxusleikmönnum fer hratt fækkandi. Ef til vill er tími hans bara liðinn? Við þetta má bæta að líkamstjáning Özils á velli hefur á köflum farið fyrir brjóstið á stuðningsmönnum Arsenal; hann er ekki alveg týpan sem rífur menn upp þegar á móti blæs.

Það er einmitt þetta tvískipta eðli sem hefur gert Özil að einum umdeildasta leikmanni Arsenalsögunnar. Áhangendur liðsins skiptast alveg í tvö horn; annar helmingurinn elskar Özil, hinn hatar hann eins og pestina. Er hann séní eða ónytjungur? Mídas eða Sadím?

Færri kílómetrar á mælinum 

Mögulega þyrfti Mesut Özil bara að vera í betra liði, sem er meira með knöttinn en Arsenal hefur burði til í augnablikinu og þarf fyrir vikið sjaldnar að verjast. Þannig hefur hann notið sín best, svo sem hjá Real og þýska landsliðinu. Özil er orðinn 32 ára en það er enginn aldur í samtímasparki og kappinn ætti að geta spilað í nokkur ár í viðbót; alltént eru hvergi nærri eins margir kílómetrar á mælinum hjá honum og mörgum jafnöldrum hans. Capiche?

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert