Enginn hefur sagt mér annað

Jürgen Klopp fylgist með sínum mönnum hita upp fyrir leikinn …
Jürgen Klopp fylgist með sínum mönnum hita upp fyrir leikinn gegn Sheffield United á laugardaginn. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, kveðst hafa úr sama leikmannahópi að velja og gegn Sheffield United á laugardaginn þegar dönsku meistararnir Midtjylland koma í heimsókn annað kvöld í Meistaradeild Evrópu.

„Eftir því sem ég best veit eru allir heilir, enginn hefur sagt mér annað enn sem komið er. Sennilega bætist enginn við en við misstum alla vega engan í meiðsli í leiknum,“ sagði Klopp á heimasíðu Liverpool í dag.

Thiago Alcantara, Joel Matip og Naby Keita verða því áfram fjarverandi en þeir misstu allir af leiknum við Sheffield United vegna meiðsla.

Liverpool vann Ajax 1:0 á útivelli í fyrstu umferðinni í síðustu viku en Mikael Anderson og samherjar hans töpuðu 0:4 á heimavelli gegn Atalanta frá Ítalíu. Mikael varð þar fjórtándi Íslendingurinn frá upphafi til að spila í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

Midtjylland vann yfirburðasigur í dönsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili og vann í gær sætan sigur á útivelli gegn erkifjendum sínum í Brøndby, 3:2, eftir að hafa lent tveimur mörkum undir. Mikael spilaði þar fyrstu 60 mínúturnar. Midtjylland fór þar með uppfyrir Brøndby og í annað sætið með 13 stig eftir sex umferðir en SønderjyskE er óvænt á toppnum með 13 stig.

mbl.is