Pogba ætlar að kæra enskt blað fyrir falsfrétt

Paul Pogba með boltann í landsleik.
Paul Pogba með boltann í landsleik. AFP

Paul Pogba, leikmaður Manchester United og franska landsliðsins í knattspyrnu, kveðst ætla að höfða mál á hendur enska blaðinu The Sun fyrir að birta falsfrétt um sig í morgun.

Fréttin var á þá leið að Pogba væri hættur að spila með franska landsliðinu vegna ummæla Emmanuels Macrons, Frakklandsforseta, um að eftirlit yrði hert með íslömskum öfgahreyfingum í landinu í kjölfarið á hrottalegu morði á kennara á dögunum.

Pogba, sem er múslimi, skrifaði: „Óásættanlegt. Falsfréttir,“ með færslu á Instagram þar sem hann birti tilvísun í „fréttina“ úr The Sun.

„The Sun heldur áfram. Algjörlega hundrað prósent ósönn frétt um mig, með fullyrðingum sem ég hef aldrei sagt eða hugsað. Ég er yfir mig hneykslaður, reiður, í áfalli og svekktur yfir því hvernig sumir „fjölmiðlar“ nota mig til að búa til gjörsamlega falskar fyrirsagnir í kringum atburði sem gerast í Frakklandi og bæta franska landsliðinu við í súpuna.

Ég er algjörlega andvígur öllum hryðjuverkum og ofbeldi. Því miður er sumt fjölmiðlafólk ekki ábyrgt þegar það skrifar fréttir, það misnotar fjölmiðlafrelsi sitt og kannar ekki hvort það sem það skrifar um sé satt og rétt, og býr þannig til keðjur af sögusögnum án þess að hirða um hvernig það hefur áhrif á líf annarra, og á mitt líf,“ skrifaði Pogba og bætti því við að hann ætlaði að höfða mál á hendur útgefendunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert