Welbeck gæti snúið aftur í dag

Danny Welbeck er kominn í raðir Brighton.
Danny Welbeck er kominn í raðir Brighton. Ljósmynd/Brighton

Útlit er fyrir að Danny Welbeck, fyrrverandi leikmaður Arsenal og Manchester United og landsliðsmaður Englands til margra ára, leiki á ný í úrvalsdeildinni í dag.

Welbeck samdi við Brighton á dögunum, eftir að hafa verið leystur undan samningi hjá Watford, og gæti leikið með liðinu þegar það tekur á móti WBA á heimavelli sínum klukkan 17.30.

Sóknarmaðurinn Welbeck er enn aðeins 29 ára gamall en þó eru tólf ár síðan hann hóf að spila með Manchester United, félaginu sem ól hann upp frá ellefu ára aldri. Hann lék með United til 2014 og síðan með Arsenal til 2019 en spilaði síðasta tímabil með Watford þar sem Welbeck náði aðeins að spila átján leiki og skora í þeim tvö mörk.

Welbeck hefur aldrei verið markamaskína, hann gerði mest níu mörk í úrvalsdeildinni á einu tímabili, gerði það tvívegis með Manchester United, en er með hlutfallslega besta markaskorið með enska landsliðinu þar sem hann hefur gert 16 mörk í 42 landsleikjum. Þar hefur hann þó ekki fengið tækifæri í tvö ár.

Graham Potter, knattspyrnustjóri Brighton, segir að Welbeck eigi ennþá fullt erindi í úrvalsdeildina og freistar þess að kveikja í honum á nýjan leik í nýju umhverfi. 

mbl.is