Lykilmenn áfram frá hjá Liverpool

Thiago Alcantara er tæpur vegna meiðsla.
Thiago Alcantara er tæpur vegna meiðsla. AFP

Englandsmeistarar Liverpool taka á móti Midtjylland í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu á Anfield í Liverpool í kvöld.

Liverpool verður án nokkurra sterkra leikmanna en þetta staðfesti Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri liðsins, á blaðamannafundi liðsins í vikunni.

Joel Matip, Naby Keita og Thiago Alcantara eru allir tæpir vegna meiðsla og því litlar líkur á því að þeir spili í kvöld.

Liverpool byrjaði riðlakeppni Meistaradeildarinnar á 1:0-sigri gegn Ajax í Amsterdam í síðustu viku en liðið var án allra þessa leikmanna í leiknum í Hollandi.

Miðjumaðurinn Fabinho mun því að öllum líkindum spila sem miðvörður í kvöld, eins og hann hefur gert í síðustu tveimur leikjum.

Þá telja enskir fjölmiðlar líklegt að fremstu þrír leikmenn Liverpool, þeir Sadio Mané, Firmino og Mohamed Salah, verði allir hvíldir.

mbl.is