Geta tekið á móti 23 þúsund áhorfendum

Old Trafford hefur verið tómlegur síðan í mars.
Old Trafford hefur verið tómlegur síðan í mars. AFP

Enska knattspyrnufélagið Manchester United segist reiðubúið að bjóða 23.500 stuðningsmenn velkomna á Old Trafford-völlinn þegar yfirvöld leyfa stuðningsmönnum að mæta á leiki á nýjan leik. Verður fyllsta öryggis gætt. 

Átti að leyfa stuðningsmönnum að mæta á völlinn á Englandi í október, en þeim fyriráætlunum var frestað vegna fjölgunar kórónuveirusmita og er óvíst hvenær stuðningsmenn ensku liðanna mega mæta á völlinn á nýjan leik. 

Collette Roche, starfsmaður Manchester United, segir félagið hafa unnið hörðum höndum að því að gera völlinn öruggan fyrir stuðningsmenn. 

„Það voru mikil vonbrigði að fá ekki stuðningsmenn inn um dyrnar í október því það var allt klappað og klárt hjá okkur og fyllsta öryggis gætt,“ sagði Roche og bætti við að öruggt væri að hafa 23.500 stuðningsmenn á vellinum. 

„Við lögðum mikið á okkur í tvo mánuði til að auka öryggi stuðningsmanna. Við erum sannfærðir um að 23.500 stuðningsmenn gætu mætt á völlinn. Það er erfitt að skilja af hverju fólk getur safnast saman í flugvélum, bíósölum og veitingastöðum en ekki fótboltaleikjum,“ sagði Roche við Sky. 

mbl.is