Stærsta áskorun Klopps á ferlinum

Næstu mánuðir gætu reynst Jürgen Klopp erfiðir.
Næstu mánuðir gætu reynst Jürgen Klopp erfiðir. AFP

Það mæðir mikið á Jürgen Klopp, knattspyrnustjóra Liverpool, þessa dagana en liðið vann 2:0-sigur gegn Midtjylland í Meistaradeildinni á Anfield í Liverpool í gær.

Fabinho, miðjumaður liðsins, var í byrjunarliðinu í gær en þurfti að yfirgefa völlinn eftir hálftíma leik vegna meiðsla aftan í læri.

Fabinho hefur leikið sem miðvörður í síðustu þremur leikjum Liverpool þar sem Virgil van Dijk skaddaði liðbönd í hné í leik Everton og Liverpool 17. október síðastliðinn.

Van Dijk verður að öllum líkindum frá út tímabilið og nú stefnir allt í að Fabinho verði frá næstu fjórar til sex vikurnar.

Þá er Joel Matip, einn af miðvörðum liðsins, einnig að glíma við meiðsli og Joe Gomez því eini heili miðvörður liðsins, eins og sakir standa.

Klopp tók við liði Liverpool í október 2015 og hefur liðið orðið Evrópumeistari, heimsmeistari félagsliða og nú síðast Englandsmeistari undir hans stjórn.

James Pearce, blaðamaður hjá The Athletic, sérhæfir sig í málefnum Liverpool og segir að næstu vikur og mánuðir séu stærsta áskorun Klopps á ferlinum.

„Leikjaálagið á tímabilinu 2020-21 er svakalegt og stærsta áskorun Klopps á ferlinum hingað til,“ sagði Pearce í umfjöllun sinni í dag.

„Meiðslin halda áfram að hrúgast upp hjá félaginu sem gerir komandi verkefni ennþá erfiðari. 

Væntingarnar á Anfield eru miklar eftir árangur undanfarinna ára og til að bæta gráu ofan á svart þarf Liverpool að leika á tómum velli, án stuðningsmanna sinna, sem eru á meðal þeirra bestu í heimi.

Næstu vikur gætu reynst afar erfiðar og krefjandi fyrir þýska stjórann,“ bætti Pearce við.

Fabinho fór meiddur af velli í gær.
Fabinho fór meiddur af velli í gær. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert