Þetta verður erfitt ár

Zinedine Zidane á hliðarlínunni í Þýskalandi í gær.
Zinedine Zidane á hliðarlínunni í Þýskalandi í gær. AFP

Zinedine Zidane, knattspyrnustjóri Real Madrid á Spáni, var ómyrkur í máli eftir 2:2-jafntefli liðsins gegn Borussia Mönchengladbach í Meistaradeildinni í Þýskalandi í gær.

Gladbach leiddi með tveimur mörkum gegn engu þegar þrjár mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma en þá tókst Karim Benzema að minnka muninn áður en Casemiro bjargaði jafntefli með marki í uppbótartíma fyrir Spánarmeistarana.

Real Madrid hefur byrjað riðlakeppnina illa og er aðeins með 1 stig í neðsta sæti B-riðils eftir fyrstu tvo leiki sína.

„Ég átti ekki von á svona miklu drama í restina,“ sagði franski stjórinn í leikslok.

„Ég er hins vegar ánægður með það hvernig leikmenn liðsins svöruðu því að vera undir og ánægðastur er ég að sjálfsögðu með endurkomuna. 

Stig er stig og þetta gæti reynst okkur dýrmætt þegar allt kemur til alls. Þetta verður erfitt ár fyrir alla en ég er stoltur.

Með svona spilamennsku förum við áfram úr riðlakeppninni, ég hef engar áhyggjur af öðru,“ bætti franski stjórinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert