Langþráð tækifæri með Arsenal í kvöld?

Rúnar Alex Rúnarsson gæti spilað sinn fyrsta leik með Arsenal …
Rúnar Alex Rúnarsson gæti spilað sinn fyrsta leik með Arsenal gegn Dundalk í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rúnar Alex Rúnarsson, markvörður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu og Arsenal í ensku úrvalsdeildinni, gæti spilað sinn fyrsta leik fyrir félagið í kvöld.

Arsenal fær Dundalk í heimsókn í Evrópudeildinni en enska liðið er með 3 stig í efsta sæti B-riðils keppninnar ásamt Molde eftir fyrstu umferð riðlakeppninnar.

Rúnar Alex á ennþá eftir að spila sinn fyrsta leik fyrir félagið eftir að hafa komið þangað frá franska 1. deildar félaginu Dijon í september fyrir 1,5 milljónir punda.

Arsenal birti mynd af íslenska markverðinum á twittersíðu sinni í gær þar sem það er gefið sterklega í skyn að hann muni fá tækifæri í kvöld.

Rúnar Alex er 25 ára gamall en er uppalinn hjá KR og hefur leikið með Nordsjælland, Dijon og nú Arsenal á atvinnumannsferli sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert